Ævintýri og líf í Kanada

Ég var svo heppinn að fá að kíkja á ævisögu Guðjóns R. Sigurðssonar frá Fagurhólsmýri, 2 útgáfur af henni meiraðsegja, í frumhandriti – en var þá bókavörðurinn, ljóðskáld og fílólóg Þórður Sævar Jónsson að taka fyrstu skref í að búa hana til endanlegrar útgáfu.
Þessi stórmerkilega saga, sem stóð íslenskum útgefendum til boða frá því á sjöunda áratug síðustu aldar, var loksins að komast á prent og mikið ástríðufólk á bakvið fyrirtækið.

En af hverju þurfti ævisagan að liggja óhreyfð í skúffu í tæp sextíu ár? Saga, einsog mun síðar koma að, sem er bæði stórskemmtileg og óendanlega mikilvæg heimild um ýmist og margt.
Jú, karlinn var eitthvað pínu sérlundaður í málfari og stíl – hafði jú eytt fjörutíu árum nánast í óbyggðum með flestum öðrum þjóðum en íslenskmæltum.
Guðjón vildi ekki „íslenskufræðingar“ útgáfanna væru að breyta sköpunarverkinu sínu of mikið og var þá bara skellt á furðufuglinn.

Það er því frekar íronískt að ævisagan fái svo loksins að vera sýnileg hinum ofurviðkvæmu og auðspilltu íslensku lesendaaugum – árið sem bæði málfarsnefnd Háskólans og Rúvs tilskipuðu að frá og með þessu og framvegis skuli íslenskan vera allskonar og einhvernvegin og hugmyndir um málfræði-, setningarfræði- og skikkanlegar reglur heyri sögunni til.
Þannig hefði í raun verið hægt að gefa hana út óbreytta einsog ég stakk uppá við fræðimanninn, eða í það minnsta, hafa báðar útgáfur í bókinni.
En þá hefði þessi frábæra bók mögulega aldrei komið út – fræðimaðurinn gerði því vel að hlíta engu mínum ráðum. Þó bókaútgefendur fylgi sífús og gjarna bönnum „íslenskufræðinganna“ er ekki gefið að þau séu jafn fús að láta leyfi þeirra stjórna sínum vélum.

En í stuttu máli, hvað er svona merkilegt við þessa bók? Ævintýri og líf í Kanada – Endurminningar Guðjóns R. Sigurðssonar.
Fyrir það fyrsta; næstum ekkert af því sem Guðjón viðhefst í nýheimum, og hvað þá einasta atóm af hans lífsnálgun er sambærilegt við aðra landnema landa hans. Með fullri virðingu, þá fluttu Íslendingar nánast undantekningarlaust tilveru sína holt og bolt vestur – það er, þau fundu hokri sínu, basli, þunglyndi og vonleysi bara nýtt land.
Guðjón fór allt aðra leið, alltaf frjáls og alltaf jákvæður og upplitsdjarfur – það var aldrei neitt hokur eða sjálfsánauð tilað þóknast guði og narsissisma – ævintýri hans lesast soldið einsog æskuár Bodhisatva; leiðin að uppljómuninni.

Það er eitt. Hitt er allt sem hann sér. Lesandinn fær mjög áhugaverða innsýn í stétta-, réttinda- og kjarabaráttu – Guðjón mætir í nýja heiminn þarsem „vestrið er villt“ og einstaklingsfrekjan ræður, sjálfur með skandinavíska réttsýni í farteskinu – og við fáum svo að fylgjast með þróun réttindahugmynda og samtryggingar – í gegnum hin ýmsustu störf sem Guðjón vinnur.
Það eru mjög skemmtilegir kaflar um kanadísku kaupfélögin í útgerð, við finnum hvernig Rússarnir þróast frá því að vera besta vinnuaflið yfir í að vera hættuleg element sem þarf að girða frá.
Guðjón hittir nýaldarkuklara sem vilja ólm læra um „landið“ af langdauðum indjánum í andaglasi/millimennsku/dópskýi – en sparka í eða hundsa lifandi indjána sem gætu gefið þeim enn gagnlegri upplýsingar.
Og síðast en ekki síst; ótrúlegt líf veiðimannsins – á þessum síðustu árum þegar maðurinn gat lifað í harmóníu með náttúru og áðuren allt fór yfir í mass- og ofveiði.
Enn og aftur – þetta er stórmerkileg bók um gríðarlega merkilegt lífshlaup. Og gargar á meira, aðra bók – enda eftir að segja frá árunum eftir Kanadadvölina, list Guðjóns.
Best færi á ef Þórður ynni það verk einnig, enda búinn að setja sig vel inn í aðstæður og mynda tengsl við fjölskyldu og annað fólk sem þekkir til.

Sumsé, með vesturheimsáhrifum – ég gæti ekki ofmælt með þessari bók.


13. janúar

Dáin heimsveldi eftir Steinar Braga

Nokkur gögg um nýjustu bók Steinars Braga

Áleitnasta spurningin við lestur Dáinna heimsvelda var (kanski ekki furðulegt nokk) að stærsta leyti sú sama og við lestur Truflunarinnar – um tungumál vísindaskáldsögunnar, tungumál fantasíunnar. Íslensk tunga er svo instrúmentalísk, útiliterian, – í merkingunni: hún og veruleikinn sem við náum utanum eru nánast ósundurgreinanleg – ekkert kemur á óvart, ekkert er nýtt.
Eða þannig upplifum við það, grunn hugsanir og hið þekkta eru á tungumálinu sem við fæðumst inní, hversdagurinn; sækja kýrnar í morgunmjalt, skila þeim, hlaupa upp í fjall í hádeginu, tálga nokkrar spýtur, kvöldmjalt, svæfa kýrnar. Öll þessi orð eru svo eðlileg fyrir íslenska raunveruleikann svokallaðan. En við þurfum meira tungumál – jafnvel annað – ef við ætlum að hugsa um Jappi hinn mikla sem býr í Nagaland, víddir sem skilgreinast/mælast í áferð og teygjanleika eða stjörnurnar í millihólfunum sem myndast þarsem eitt stjörnuhringkerfi mætir öðru. Skilja annað kyn eða kynvitund – til þess þarftu tungumál sem leyfir fantasíu og óhlutstæðar bollaleggingar. Okkar eigið tungumál er alltaf hjá okkur og þarafleiðandi síður framandi.
Hvort sem við lærðum það af svokölluðum „trúarbrögðum“ eða úr skáldskap, höldum við flest í hugmynd um að til sé einhver óendanleiki – og því fylgir að ímynda sér hvað er handan við skilning okkar.

Það er ágætt stílbragð hjá höfundi að opna vísindaskáldsöguna með kunnuglegri hugmynd úr 2001, Solaris, Interstellar og fleirum – eða þeirri að því lengra sem þú heldur útí hið óþekkjanlega og óendanlega fjarlæga þér því keimlíkara verður það þínu nálægasta umhverfi og reynslu.
Hér er ágætt að leggja áherslu á kvikmyndaútfærslur af þessum hugmyndum, tilað grunda betur þessa hugmynd um tungumál fantasíunnar – gaggari þekkir margar þessar tilvísanir úr kvikmyndaheiminum, en flestar komu þær þó fyrst fram í bókum – á tungumáli sem við höfum tilhneigingu tilað telja frekar eðlilegt fyrir genrað en okkar eigið (fyrst og fremst vegna þess að það er ekki okkar eigið) – en kvikmynd brúar gjarna þetta bil og ónýtir kenninguna sem hér er fram sett. Það er skiljanlega ekki relevant í því sem hér er til umræðu.

Svo er það líka fakti fyrir okkur sem fædd erum á fyrri öldum að vísindaskáldskap þurftum við meira og minna að lesa allan á öðrum tungumálum, stöku sinnum komumst við í þýddar fantasíubækur – en þýðing er strangt til tekið ekki óblandað tungumál hugans.
Það er ekki svo að ekki sé hægt að ímynda sér og vera abstrakt á eigin tungumáli – það er hægt að ímynda sér ástir eða andstyggð konu, eða sósjalíska byltingu – hvorugt um sig mjög fjarri grunnþörfum líkamans – það er hægt að segja draugasögur, en allt er þetta byggt á einni þekktri rútínu eða annarri.

Hafandi undirbúið þetta svo; má því næst segja að fantasían/vísindaskáldsagan hafi samkvæmt hefð einhvern tónblæ eða form sem rekst illa á við íslenskuna. Ennfremur ertu svo meðvituð um að þú sért að lesa á íslensku að það eitt og sér verður mjög distrakting.
Með vitneskju og virðing um og fyrir öðrum fantasíuhöfundum íslenskum, sem ég þekki minna, – í augnablikinu – finnst mér Steinar Bragi vinna í nýju bókinni og þeirri þaráundan, stórvirki í að reynað búa til fordæmi fyrir þessari umfram hugsun á íslensku.
Um leið vinnur hann vel með þann ónáttúruleika formsins sem ennþá kennir meðan hefðin er ekki fullsköpuð fyrir tunguna. Einsog áður segir; útkoman er oft á tíðum hýper sjálfsmeðvitund sem rímar ágætlega við heiminn sem bókin lýsir – þarsem sjálfið er það eina sem eftir er af manneskjunni, tilverulega séð.

En er þetta vísindaskáldskapur, ef um er að ræða al-átækilega samfélagsrýni sem hvortheldur væri hægt að tileinka sér og vinna úr sem einstaklingur eða jafnvel leggja til landslaga og hópeflis? Og ef þetta er relevant og snertir okkur, á þá þessi hugmynd við um óeðlileika íslenskunnar á þessum vettvangi?

Bókin lýsir framtíð þarsem alsherjarstríð hefur (eða ekki) rekið smiðshöggið á tvískiptingu heimsins í þau sem eru einskis virði og búa ennþá á ónýtri plánetunni og hin sem búa í skýjunum þarsem þau gera sér að leik að láta níðþung spjót falla til jarðar og veðja um hvort einhver auminginn verði fyrir þeim. Þetta fannst mér minna óneitanlega á elítismann í skuggahverfisheimsmyndinni í Konum – þarsem mörg hundruð kílóa steinhellur féllu úr klæðningunni á skýjakljúfunum og yfir smælingjann á jörðu niðri en gæti líka átt að minna á grimmd og græsku guðs og guða.
Um leið og þessi stéttskipting er sjálfsagt ekki tilað hlakka til – er hún samt fánýtt tildur því bæði pöpull og útvalin eru að þróast yfir í formlausar einingar, má því spyrja hvort og hvernig stéttbundnum materíalisma verði viðhaldið í ómateríalískri tilveru?

Efnisheimurinn versus kjötheimurinn versus framtíðin er síðan annað lykilatriði. Er þessi algera yfirfærsla alls í netform (sem augljóslega stefnir í) næsta skref eftir að manneskjan afneitar kjötneysluhlutanum í sjálfri sér og hringrás náttúrunnar. Og hvort er það þá martröð eða draumur grænkerans?
Kjötið sjálft er nánast alfjarri góðu gamni, og ekki víst að það sé einusinni raunverulegt þarsem á það er minnst. Nokkrum sinnum er minnst á að kaupa sér kjöt í kynferðislegum tilgangi – og vekur sá talsmáti ekki þau hughrif að verið sé að smætta vændaða manneskju heldur frekar bókstaflega að einhver sé að fara að hjakka á kjötstykki.
Einnig eru buff margoft nefnd til sögunnar sem lífverðir hinna útvöldu – en tvö skemmtileg nýyrði sem gjarna fylgja þeim lýsingum, finnst mér frekar gefa til kynna að þessi buff séu hólógröm eða annarskonar sýndarverur.

Síðast en ekki als ekki síst má lesa Dáin heimsveldi sem eitt margþætt og ígrundað komment á fíknina.
Mér sýndist á öllu að eini eiginleiki manneskjunnar sem lifði af umbreytinguna vera fíknin – og þarsem það eina sem átti að fara yfir var konsentrerað sjálf manneskjunnar, hlýtur það að þýða að fíknin sé hið raunverulega sjálf.

Nátengt þessu (en um leið á fullkomlega öndverðum nótum) er staðreyndin að fólk skuli vera ennþá að þamba áfengi í framtíð þegar er búið að kortleggja líkamann og taugakerfið þannig að alla stimúlanta og viðbrögð má framkalla með stýrikerfum sem eru orðin svo nanó að þau hafa ekki einusinni eðlisform lengur.
Spurning hvort það tengist voninni sem er oft handan við hornið í þessari frekar dökku sýn.

Annar augljós punktur var að (og í beinu framhaldi af síðustu athugun) fíkn sé svo gjörsamlega ólæknandi að auðveldara sé að pakka fíklinum inn í einhverjar VRumbúðir og forrita þar handa honum nýjan heim og nýja heima – af því augljóslega þarf hann fantasíu líka.

Netfíknin sem slík fær sérstakan sess í mjög sterkum kafla sem lýsir síðustu andartökum manneskjunnar hérna megin heimsendis?umbreytingar? sem sadómasókískri orgíu sem mér fannst minna allverulega á föst leikatriði á Twitter.

Bókin lýsir einnig vel hversu langt manneskjan er tilbúin að ganga og leggja á sig tilað finna og „fá“ maka eða sálufélaga og hve óeðlilegt og óekta það reynist þegar gengur eftir. Eða hreinlega, endir slíks ferlis er heimsendir.
Nokkur heimsupphafs/endis tákn má finna víðsvegar um frásögnina. Sýndargæludýr söguhetjunnar, dýraandar, eru mús og fálki og refar koma við sögu í síðasta hlutanum. Hin svokölluðu fastadýr Íslands, þau voru hér þegar landið byggðist og því eðlilegt að ætla að þau verði áfram til eftir að „maðurinn og siðmenning hans“ hverfa.
Dýrin hafa líka stöðu innan Ásatrúarinnar og má í því samhengi líta á að áðurnefnd mús hleypur stundum fram og aftur eftir sögupersónunni endilangri einsog á heimstrénu (ber boð milli líkama og vitundar/sjálfs?) – en persónulega finnst mér það frekar eðlileg og hefðbundin sjálfsmynd fyrir karla á miðjum aldri – við sjáum okkur sjálfa gjarna sem tré, og ekkert frekar í klúrri merkingu, við erum bara tré í eigin tilveru og höfðum fram að þessu tilhneigingu tilað trúa því að öllum öðrum fyndist það líka.

Það má ekki gleyma voninni, sem aldrei er langt undan. Vonin sem kviknar í hvert skipti sem þú vaknar og skilur að hryllingurinn sem þú varst að upplifa var bara martröð – og þegar tilveran og kringumstæður verða alveg óbærilegar þá geturðu ekki nema vonað að þú vaknir upp frá þeim draumi.
Það lýsir kanski einna best lífi fíkilsins; hann er alltaf að reyna að vakna frá þessari martröð.

En svo er fyrir öllu að vera ekkert að reynað hnoðast við að gera skáldskapinn verkfærislegan.

En til hamingju Steinar Bragi, við erum komin langleiðina með að gera fantasíuna eðlilega á íslensku og á þessi bókan stóran þátt í því.

2. nóvember

Mæli hreint sikk með þessari. Ódauðleg innsýn í tónlistarbransann og vonir og væntingar og hvað það er að sitja uppi með karlorku og karllíkama í heimi sem hreinlega hefur (og skiljanlega) þróast í aðra átt.

Leiksigur á línuna og unaðsfögur mússikk, svo ekki sé talað um búninga og dans.

Algert afbragð!

9.september

Nokkur orð um Svar við bréfi Helgu. Ég sá hana fyrir nokkrum dögum og held ég sé kominn með þetta núna.

Byrjum á því að segja að þetta er stórfín mynd, aðalleikararnir yndislegir, aukaleikarar sterkir – tónlistin frábær og myndatakan stórkostleg.

Varðandi inntakið þá má segja að maður fékk þessa tilfinningu um gífurlega raunréttan spegil á Ísland, íslenskar sögur og tilfinningar – en það var eitthvað meira. Eitthvað sem ég náði ekki strax.

Sumt í leiktextanum var skrítin íslenska, ekki vond eða vitlaus, bara skrítin í samhenginu eða fyrir leikarann sem las hann, sumar Strandasenurnar litu út einsog þær væru filmaðar á Norðurfirði (ekkert að því samt), innréttingar margar voru ekki alveg faktúal fyrir tímann, eða vinnuvélar og búskaparhættir. Ofaná það bætist svo kvikmyndatónlist sem hljómar einsog úr öðrum heimi.

Sum gætu verið skeptísk á það að þessar verulega flottu og kláru konur skyldu vera svona uppteknar af slíkum tiltölulega óspennandi karli, en þá má hvorki gleyma hvað drengurinn er verulega fagur né tengingu hans inn í Búnaðarsambandið og Landbúnaðarráðuneytið.

Og þar var komið svarið.

Í Star Trek er til “Hodgkin’s Law of Parallel Planetary Development.” – sem skýrir afhverju Enterprise liðar eru sífellt að berjast við Nasista eða Ku Klux Klan, eða Kreppuna miklu í öðrum sólkerfum. Hugmyndin er sú að maskínan og ferlið í þróun lífræns umhverfis bjóði ekki upp á svo margar ólíkar útkomur, því sé jafnvel algengt að M-class plánetur búi að keimlíkri sögu og samfélagi.

Svo haldið sé áfram upptalningu að ofan en skýrt beint með Lögmáli Hodgkins, nokkur skot skoruðu aðeins á jafnvægisvitund áhorfandans, – þetta er þekkt aðferð tilað vekja tilfinningu um draumástand eða annars konar óraunveruleika – í þessu tilfelli gæti það verið tilað sýna aðeins annað þyngdarlögmál eða andrúmsloft – verulega kúl stílbragð.

Tímaflakkið var líka passlega ruglingslegt og blessunarlega laust við fyrirsjáanlega hugsanakeðju áhorfanda á okkar plánetu. Eitt af því sem gæti verið örlítið ólíkt milli manneskjunnar hér og annarrar á slíkri plánetu væri einmitt átak og gagntak og hvernig umhverfið svarar því.

Í Star Trek heimi litu slíkar plánetur, í miklum meirihluta, út einsog Kalifornía, Breska Kólumbía, og aðeins færri einsog New York og Berlín – þannig tíðni birtingarhorfa er augljóslega hlutfall milli stærðar landanna á hverri plánetu og stærðar og möguleika stjörnualheimanna. Við vitum í dag að alheimurinn er mun stærri en Spock og Uhura gátu vitað á sínum tíma – þannig að okkur er fyllilega réttlætanlegt að ætla að þarna úti einhversstaðar sé annað Ísland, eins en aðeins öðruvísi.

Brilljant mynd og mæli með.


1. ágúst

Ég læt það yfirleitt ekki aftra mér að kíkja á mynd þegar breiðborgarinn gefur lítið fyrir þær. En viðurkenni að ég var ekkert alltof spenntur fyrir Norðmannasögu, unz ég sá trailer þarsem hún leit útfyrir að vera hrein og klár endurgerð á Hrafninum flýgur: Brúnaþungur maður myrðir annan og tekur konu hans, sonur hverfur í hálfa öld en kemur aftur og gerir brúnaþungum manni margar skráveifur og drepur hann á endanum og frelsar móður sína.

Sjón gerir vel að fara alla leið í frumfrumheimildina, að Hamlet, Red Harvest og jafnvel Ódysseif – og umskrifa hana og gera þannig bókmenntalega hringferð sem er prýðilega táknrænt ef þetta eru allra síðustu dagar sem við lifum núna.

Amlóðasaga úr Gesta Danorum hefur lengi reynt að komast á tjaldið en pródúserar og meðhöfundar ávallt milliliðast umað útvatna svo að úr verði “nýtt verk”.

Það er sumsé gott mál.

Það er margt prýðilegt í myndinni en allra best fannst mér allt sem sneri að nornum, sem ekki er leyfilegt tungutak lengur, heldur frekar að tala um “konur sem eiga í sérstöku sambandi við náttúruna” – þær eru bæði austrænar og norrænar, ámæla á kirkjuslafnesku og ýmsu afbrigði af forn norrænu.

Við fáum líka að sjá hamhleypuseremóníu karla – forna slafneska en það er formáli að frekar illum verkum, ólíkt flestum gjörðum náttúrukvennanna.

Þessi næmni fyrir náttúrutrúarbrögðum kemur ekki á óvart ef áhorfendur þekkja fyrri verk leikstjórans.

Þáttur Kidmanar er magnaður, lengi að fara í gang en biðin er þess virði. Bjarkarpartur er fyrirtak líka en af öðrum toga.

Taylor Joy á nokkur ódauðleg atriði sem unnendur “kvenna í sérstöku sambandi við náttúruna”-menningar kveikja vel á.

Ingvar er brilljant sem endranær, og skemmtilegt að merkja að Skarsgård leikur Amlóðann soldið einsog Ingvar lék Grendil hér um árið. Áhugaverð nálgun en kemur fyrirtak vel út.

Leiksvið og umgjörð er mjög fín, skemmtilega ofið saman onsite og studio tökum sem gerir upplifunina draum-, martraðar- og jafnvel ofsjónarkennda á réttum stöðum.

Sándtrakkið er að mestu leyti flott – en fullmikið af “víkingaklappi” sem gerði svoldið erfitt að taka senurnar alvarlega.

En allavega, miklu skemmtilegri en ég átti von á – Norðurmaðurinn er stórfín mynd. Vel gert Eggers og Sjón.

24. júlí

Kanski í það seinasta en maður á alltaf að prísa það sem vel er gert

Komst loksins í að kíkja á Lambið í sal 2 í Paradís, – hef heyrt í fólki sem annaðhvort var yfir sig hrifið og svo öðru sem fannst ekkert um.

Mér fannst þetta alveg prýðileg mynd og margt að hugsa og spá. Efstu lögin 2 væru að lesa myndina sem umfjöllun um mjög dysfúnksjónal fjölskyldu, og fjölskyldan væri þá míkró staðgengill fyrir Ísland, sem um leið gæti þá verið míkró af heiminum sem slíkum.

Þessi lestur fer í rauninni ekki ýkja lengra og er þá ívið meira spennandi að skoða myndina sem umfjöllun um stöðu landbúnaðar á Íslandi. Væri þá “landbúnaður” nokkurskonar ranghugmynd og/eða hugarvíl fólks sem “býr útá landi”.

Það “telur” sig vera að reka einhverja fjölskyldu í formi búskapar og að það hafi einhverja merkingu eða tilgang í stóra samhenginu – en ekkert er raunverulegt og fólk situr bara iðjulaust og vonlaust í vindbörðum hjöllum og hreysum og vonast eftir dúsu frá yfirvaldinu.

Eina lausnin og leiðin útúr villunni er sjálfsmorð – mælum við því ekki bót eða með, og minnum á að rætt er um túlkun á skáldverki.

Á þessum meiði er undirstrikuð gjáin milli landsbyggðar og “höfuðborgarbúa” og hinir ólíku raunveruleikar sem fólk lifir í – einsog glöggt má sjá þegar fólk sem aldrei hefur stigið fæti útfyrir 101 er að reyna að hafa skoðun á gangagerð og vegaframkvæmdum víðsvegar um landið.

Ætterni og uppruni er eðlileg spurning í myndinni, enda á það við á Íslandi sem annars staðar – að enginn kemur í raun frá þéttbýlinu – ættarbólið er alltaf í dreifbýlinu, smærra og stærra.Sífellt hringl með raunveruleika “landnáms” á Íslandi og áminningar um að kirkjubóka-manntöl eru meira og minna rugl og fals gera að verkum að við hljótum að spyrja: hver erum við og hvaðan komum við??

Áhugaverð viðbót er svo að hugsa Lambið í samhengi við Kötlu Baltasars – þarsem á sama tíma er verið að vinna með þekkt þjóðsagnaminni og búa til ný frá grunni með hliðsjón til útflutnings og endursköpunar mýþósa í pólitískum tilgangi.

Sumsé afbragðs fínt listaverk og til hamingju öll sem að stóðu. Bra jobbat!

25. mars

Hér er aldeilis fín æfing í smekkleysi og off-litri-kúltúr. Ísraelskir grínþættir þarsem aðalhúmorinn snýst um hvað það er fyndið að lögreglan fari ekki eftir lögum og lemji, pynti og troði á réttindum borgaranna útí eitt.

“Þetta er einsog Gasa” – segir einn karakterinn tilað lýsa þeirri skoðun að honum finnist híbýli annars fátækleg og/eða ruslaraleg.

Þetta er nógu öfgafullt tilað áhorfandinn ímyndar sér að þetta hljóti að vera einhver gagnrýni – jú, vissulega, hinn stereótýpiski efi er hér útum allt, það eru nokkrar vísanir í að fyrst og fremst evrópskir gyðingar hafi lent í holókostinum.

Karakterarnir eru allir smásálir og hræsnarar.

En svo er alltaf spurningin, fyrst þið hafið í ykkur að horfa á Júróvisjón, af hverju þá ekki að horfa á þetta?

21. mars

Bad Vegan er mynd sem gott er taka back to back með Ich bin dein Mensch eftir Mariu Schrader.

Báðar fjalla þær um leit að ást og sálufélaga og ættu að tákna gjörólík svið þess gjörnings en bjóða í raun sömu niðurstöðuna.

Sú fyrri, ef lesin í nútímasamhengi, fjallar um eina hlið á misheppnuðu ástarsambandi, sem hermir öll vandræði uppá hina hliðina, mótaðiljann – með vísun í kunnugleg ágreiningsefni einsog gaslýsingu, andlega misnotkun og þar fram eftir götunum.

Þýska myndin fjallar um hvernig samband er ómöglegt jafnvel þegar einn aðilji er þrídíprentaður úr huga annars og hugmyndum um draumafélaga. Það verður að vera núningsmótstaða jafnvel í draumasamskiptum þarsem aldrei er sagt eða gert neitt annað en það sem þér er 100 prósent að skapi. Og gjarna hendir að það er núningur um núninginn.

Árekstrar og áflog eru eldsneyti sambandsins, en þótt nóg sé af þeim er það engin ávísun á að nokkuð endist.

Það er ennfremur áhugavert, þarsem veigamikill hluti sögunnar snýr að því að vera fyrst og ein með einhverja tiltekna pælingu eða skoðun, að niðurlag myndarinnar er að mestu leyti samhljóma Lucy Liuhöfuðspurningunni úr Futurama.

Eins má ætla miðað við boðskapinn í Bad Vegan að stór misskilningur sé að leggja að jöfnu það að vera “fædd fyrir hvort annað” – “ætlað að vera saman” og það að eiga vera saman í lukkulegu ástarsambandi. Frekar að þegar þú finnur “sálufélaga” þinn þá sé til aðallega til marks um að þú eigir að forðast viðkomandi einsog heitan eld.

Í þeirri þýsku er það ekki alveg eins aðkallandi að halda sig frá þeim sem var skapaður tilað uppfylla drauma þína, en frekar að hafa á bakvið eyrað svo þú getir unnið að því markvisst en um leið lát- og hávaðalaust.

Að lokum er nokkuð augljóst að “maðurinn” með sínu eðli til þráttna og deilna er ekki að fara að endast, því er kosmískum tilgangi fyrst náð þegar róbotar eru farnir að geta framleitt aðra róbóta og maðurinn óþarfur.

Ellegar; Blade Runner og Promotheus-spurningin.

Góðar stundir.

19. janúar

Fyrsta serían af Cobra Kai kom eiturhress inn í lokahryllinginn af Trump tímanum og skal alltaf skoða í því ljósi. Hvort það var einhver heimspekilegri ástæða en Las Vegasleg tilað endurheimsækja þessar endurpersónur skyldi almennt ósagt en þó man ég að persóna úr þáttum sem heita How I met your mother bað um innlit frá hetjunni í Karate Kid í afmælisgjöf, og var vonsvikin þegar Ralph Macchio mætti á svæðið.

Það var allavega tími til kominn að athuga hvort sama rétt var enn rétt hálfri öld síðar.

Það var svo margt fleira á döfinni en margdrukkin narsissísk nostalgía þegar fylgst var með (tilaðbyrja með) upprunalegu andhetjunni gera uppreisn gegn karma 9da áratugarins. Mátti fljótlega lesa að hin upprunalega uppreisn smælingjans/fórnarlambsins hafi, þótt krúttleg á sínum tíma, æxlast yfir í stórhættulegt skrímsli sem hver fer nú að verða síðastur að koma böndum á.

Unglingur einstæðu móðurinnar sem dirfðist að fara gegn valdi kúgaranna/kerfisins, var ekki að bara að storka valdi einstakra fauta sem misbeita því – heldur og alls ekki síður, aga og kerfi ríkjandi heimskipulags.

Nú skal ég vera fyrstur tilað viðurkenna að á sínum tíma hugsuðum við sem svo að einhversskonar einstaklingslegt réttlæti hlyti að vera betra en kalt stofnanaofbeldi kerfisins, við værum ekki lengur í Napóleonstyrjöldum þarsem eðlilega mætti afskrifa fórnarkostnað uppá nokkrar milljónir smælingja, og segja; ef þau hefðu átt að lifa þá hefðu þau ekki dáið.

Hugmyndin um að sú sterkasta/flinkasta lifir af fannst okkur gölluð af því sum höfðu augljósa forgjöf.

En þannig var það fyrir tíma Karate Kid, ef búllíin sóttu að þér þá þurftir þú bara að berjast eða farast ella – það fór engin að klaga eða kvarta yfir óréttlætinu. Í þessu fólst ákveðinn agi sem að sjálfsögðu gagnaðist einum hóp meira en öðrum.

Cobra Kai serían hefst með því að upprunalega andhetjan horfir yfir bandarískt samfélag og sitt eigið líf og sér að hvorugt er einsog það á að vera. Sigur fórnarlambsins á 9da áratugnum smitaðist yfir á hana og hann dró í efa valdið sem hann tilheyrði. Síðan hefur ekkert gengið upp hjá honum; metnaðarleysi, agaleysi, ábyrgðarleysi og útí samfélaginu blasir það sama við – allt er einhverjum öðrum að kenna.

Skarpleikinn í fyrstu seríunni, síðan sápaðist samfélagsádeilan útí endurtekningar og skabalón, fólst mikið til í því að spegla áróður trumpista; sem töluðu um veik Bandaríkin og nauðsyn þess að hverfa aftur til tíma þegar menn voru sterkari og ákveðnari; smælingjanum var seld sú pólitík að eina leiðin tilað bjarga heiminum væri að endurheimta og tryggja að fullu rétt hinna fáu tilað trampa á fjöldanum.

Á sama tíma fáum við að kynnast upprunalegu hetjunni og sjáum 100 prósent samfylkingu hennar – hið svokallaða „vinstri“ er orðið efri millistétt, latt og spillt auðfólk sem ber sér á brjóst yfir eigin ágætum með rauðvínsglasið í hinni hendinni. „Góða fólkið“ svo það sé bara sagt hreint út. Forréttinda- og eiginágætisblindan og tignun þess að standa ekki fyrir neitt og forðast raunverulega afstöðu og átök, svo yfirþyrmandi að þau sjá ekki einusinni að annað barnið þeirra er að týnast inní eigin rúllupylsufitu og tölvuleiki og hitt er siðblint kringlumonster með stórhættulegt bílpróf.

Ekki að nokkrum manni detti í hug að Trump hafi staðið fyrir einhverja raunverulega umræðu eða löngun tilað bæta samfélag og fólk, en hann og hreyfing hans eignaði sér gjarna þessi og tengd gildi : skort á heraga, andstöðu við manneskjuvæðingu gömlu fasísku kerfanna einsog dómstóla og lögreglu.

Upprunalega andhetjan, Zabka, tekur að sér nokkrar umkomulausar snjóflygsur (ma fleiri dökkleita syni einstæðra mæðra) og reynir að herða þau upp á gamla mátann. Ss með barsmíðum, niðurlægingu og allskonar yfirgangi.

Skemmst er frá því að segja að þessi nálgun vekur lukku og virkar, unga fólkið, eftir áratugi af sinnuleysi góða fólksins, er yfir sig hrifið af leiðsögn og viðveru valdsins, og aðhaldinu sem aginn veitir. Það verður oft erfitt að sjá hvenær handritshöfundarnir hætta að hæðast að hugmyndinni og eru farnir að trúa sjálfum sér.

Zabka singlar út krakkana eftir líkamlegum göllum eða álíka og uppnefnir þau – en vill meina að hann sé að ýta þeim tilað mæta og yfirstíga vandamál sín frekar en hlaupa frá þeim.

Zabka ræðst svo aðgreiningarlaust og random á nörda og jaðarfólk, slær bækur úr höndunum á nemendum, fleygir börnum og gamalmennum af hjólum eða hrindir bara næsta manni – einsog ekta bulla, og samhliða kennslunni í að vera ákveðin og sterk, eru þessar senur ekki einungis fyndnar heldur mjög áhersluþrungnar hvað varðar megin inntak umræðunnar.

Andhetjan fær ekki viðspyrnulaust að nota einungis hinar fornu aðferðir, unglingarnir segja stundum hingað og ekki lengra og svo þarf hún jafnvel að aðlaga sig að ýmsu nýju. Gott dæmi er þegar þjálfarann vantar „kvenkynskeppanda“ í karateliðið og „sú“ sem fellur best að því er bullandi nonbinary feministi – verður hann þá að gjöra svo vel að tileinka sér orðræðu þeirra tilað fá hana á sitt band. Þegar það heppnast fær hann hrós fyrir að vera „vók“ sem hann svarar með því að fussa og spyrja; „hvað heldurðu eiginlega, að ég pissi sitjandi?“

Á sama tíma hefur upprunalega hetjan ekkert fram að færa nema rauðvínsdrukkna trú á eigið ágæti. Þremur seríum seinna þegar hún er farin að kenna sína tegund af karate, og í ljós kemur að hún er jafn áreynslulaus og hún er inntakslaus – stefnulaus stöðnun í vissu um að vera sá sem hefur „rétt fyrir sér“.

Aukapersónur sem gefa sérstaka aukavigt; ber fyrsta að nefna John Kreese, hinn raunverulega og eilífa þrjót upprunalegu hugmyndarinnar. Meðan Johnny reynir að kenna hvernig nýta má gildi heragans, persónustyrkleika og afkomuhæfni í borgaralegum og hversdagsaðstæðum, þá er það fyrst og fremst táknrænt – því þótt lífið sjálft lúti sömu lögmálum og stríð þá er ekki endilega óvinur á næsta horni að fara að skjóta þig, stinga og drepa. Óvinir þínir vilja hafa af þér vinnuna, útiloka þig úr vinahópum, gera þig að athlægi en þau eru ekki að fara að líkamlega drepa þig, öðruvísi en óbeint.

Kreese þessi er tengingin við hið raunverulega stríð. Rambóinn sem heimurinn þóttist ekki lengur hafa not fyrir á þessum tíma.

Hann kemur fyrst inn í seríuna einsog tilað leggja áherslu á að þótt Zabka sé yfirgengilega harður og grófur í nútímanum, þá sé hann lamb við hliðina á upprunalega þrjótnum. Þegar líður á verður hlutverk hans líkara Zabka, sumsé að hugsanlega hafi nútíminn jafn mikið gagn af því sem þessir úreltu og kanseleruðu karlar hafa fram að færa, einsog öfugt. Þrjóturinn lærir að verða betri maður í interaksjóni við hörkutól nútímans.

Hin risapersónan gargar mest í fjarveru sinni. Hin guðumlíka Elisabeth Shue, sem rétt lítur við í nokkrum þáttum. Netverjar hafa spekúlerað að nánast ómöglegt hafi verið að semja við hana um aðkomu að þáttunum, sem verður að segjast pínu fyndið miðað við orðspor hennar fyrir að hafa verið skrifuð útúr hverri stórmyndinni á fætur annarri fyrir að hnýta í karllæg handrit og gagnrýna tilgangslaus kvenhlutverk.

Meðan lögfræðingar beggja aðilja sátu sveitt við að útbúa samning sem hentaði jafnt karl – og kvenveldi – fór Shue í umræðuþætti og sagði hlæjandi frá því að við upptökur á orginal Karate Kid hafi komið í ljós að hún var ekki bara líkamlega sterkari en Ralph Macchio, heldur líka flinkari í karate.

En svo verður að benda á fyrir þau sem ekki vita það nú þegar, að fyrir utan nokkrar skrítnar uppákomur á 9da áratugnum, þá varð Shue margfalt farsælli leikari en Zabka og Macchio til samans.

Maður veltir samt óhjákvæmilega fyrir sér hvort fjarvera hennar í Cobra Kai sé til marks um ásetning og þá afstöðu að jafnvel á Star Trek öld sé vitavonlaust að fá rauðsokkurnar að borðinu og gera þeim til geðs.

Þættirnir og samfélagsskoðunin í þeim, einsog í fleiri sjónvarpsþáttum, hafa flast út með auknum og ítrekuðum sáputilbrigðum tilað réttlæta meiri framleiðslu. Rétt einsog Supergirl serían. Eftir stendur þó grunnspurningin: Voru það mistök á sínum tíma að upphefja fórnarlambið Larusso og skilgreina það sem réttlæti að velta kúgurunum af stalli með grátandi almenningsálitinu og pussulegum powerpopballöðum Peter Cetera? Varð það síðan dómínó effekt og nú taki engin ábyrgð og leiti að upphefð með því að benda fingri á „sína kúgara“? Hvort sem eru það transfóbískir karlhatarar, lögfræðingar eða karlkynsháskólakennarar yfir þrítugu?

Eitt er allavega víst; Trump hafði ekki rétt yfir sér.